Verkfæri

Hér er listi yfir verkfæri sem notuð eru í S.L.A.A. Þau hjálpa okkur að viðhalda batanum frá ástar- og kynlífsfíkn.

•  Fundir þar sem við deilum reynslu okkar styrk og vonum með hvert öðru til að skilja betur sameiginlegt vandamál okkar og vinnum saman að lausn á því.
•  Síminn er fundurinn milli funda.  Með því að hafa samband við aðra vinnum við að því að rjúfa einangrunina sem er svo stór hluti af sjúkdómnum.
•  Trúnaðarsamband er milli tveggja aðila sem eiga við sama vandamál að stríða og hjálpa hvor öðrum að vinna að bata.  Þar er hægt að búa til áætlanir um kynferðislegan bata og vinna tólf-spora kerfið með aðstoð trúnaðarmannsins. Einnig er hægt að leita eftir stuðningi á erfiðum stundum.
•    Bækurnar getum við haft með okkur hvert sem við förum.  Við nýtum okkur einnig bækur um A.A., O.A. og Al-Anon og önnur tólf-spora kerfi sem hafa verið viðurkennd af samtökunum og einnig annað lesefni sem er við hæfi.
•  Reynslusporin tólf eru mjög mikilvæg verkfæri.  Þau eru byggð á tólf spora kerfi A.A. samtakanna og mælt er með því að vinna þau til að öðlast bata.
•  Bæn og hugleiðsla eru tæki til að ná sambandi við Æðri Mátt.
•  Áætlun um kynferðislegan bata er fyrirfram ákveðin leið til að tjá kynferði okkar í samhengi við önnur lífsgildi svo að þó við verðum óörugg eða villumst af leið þá höfum við skrifaðar leiðbeiningar til að hjálpa okkur.
•  Fráhald (algert eða að hluta).  Við fáum aðstoð hjá S.L.A.A. til að forðast fólk, staði eða hluti sem eru okkur skaðleg.
•  Félagsskapur er leið til að rjúfa einangrunina og kynnast fólki í öðru samhengi en kynferðislegu: eftir fundi, í stuðningshópum og í samfélaginu öllu.
•  Stefnumót eru leið til að losna úr skyndifullnægingarferlinu og kynnast öðrum og okkur sjálfum áður en við tökum kynlífstengdar ákvarðanir.
•  Slagorðin eru einfaldar staðhæfingar sem hægt er að nota í neyð, svo við eigum grunnreglur að leita í.
•  Þjónusta er aðferð til að hjálpa okkur sjálfum með því að hjálpa öðrum.

Hugtök

Hér eru útskýringar á algengum hugtökum sem notuð eru í S.L.A.A.:

Botnhegðun (Bottom-line behavior):

Ástar- og kynlífsfíkn er frábrugðin alkóhólisma og eiturlyfjafíkn að því leyti að hún getur birst í mörgum ólíkum myndum.  Mjög misjafnt er milli ástar- og kynlífsfíkla hvernig fíknin brýst fram.  Því er það svo að í S.L.A.A. þá skilgreinum við sjálf okkar eigið fráhald.  Við greinum sjálf þá hegðun sem er afleiðing fíknar okkar, sem við köllum botnhegðun.  Það er síðan sú hegðun sem við þurfum að halda okkur frá til að vera allsgáð og er það sem við köllum fráhald.

Algeng botnhegðun sem við forðumst er að stunda kynlíf utan skuldbundins sambands.  Sem dæmi um aðra botnhegðun sem margir félagar kjósa að forðast er t.d. að fara á ákveðna staði, hafa samband við ákveðna einstaklinga, horfa á ákveðna tegund af kvikmyndum eða sjónvarpsefni, notkun á klámefni, ögrandi klæðnaður, leit að skyndikynnum eða jafnvel bara að leyfa sér að detta inn í algleymi fantasía og dagdrauma.  Í stuttu máli að forðast allt sem getur sent okkur aftur inn í þráhyggju og fikn.

Að fá sér trúnaðarmann er nauðsynlegt til að geta heiðarlega skilgreint sína botnhegðun.  Aðeins við sjálf getum sagt til um hvaða mynstur í hegðun okkar eru tengd fíkninni.  Hins vegar getur fíknin blindað okkur fyrir raunveruleikanum.  Til að koma í veg fyrir mögulega afneitun þá fáum við lánaða dómgreind annars aðila og biðjum æðri mátt um að gefa okkur heiðarleika í greiningarferlinu.  Venjulega breytist skilgreining okkar á botnhegðun eftir því sem við þroskumst og öðlumst bata.  Stundum bætast við fleiri hegðunarmynstur sem við sáum ekki áður að áttu rót sína í ástar- og kynlífsfíkn.  Skilgreiningin á fíknarmynstrinu heldur þannig áfram að þróast þangað til við höfum náð fótfestu og jafnvægi í tilfinningalífi okkar.  Það að skilgreina botnhegðun okkar byggist því mikið, eins og svo margt annað í S.L.A.A. aðferðinni, á því að prófa sig áfram, gera mistök og læra af þeim.  Við gætum jafnvel þurft að breyta einhverju í hegðun okkar gagnvart maka okkar eða ástvini.

Að fara í fíkn (Acting Out):

Að fara í fíkn er að framkvæma eitthvað af þeim atriðum sem við höfum skilgreint sem botnhegðun, að brjóta gegn eigin gildum.  Ef við förum í fíkn – stundum kallað fall eða sprunga – þá höfum við misst frá okkur fráhaldið.  Nánast hver einasti félagi í S.L.A.A. hefur upplifað sprungu á einhverjum tímapunkti.  Þeir sem ná árangri í baráttunni við ástar- og kynlífsfíkn eru þeir sem nota föll sín og sprungur sem tækifæri til að læra og vaxa.  Það skiptir ekki máli hvernig við hrösum, heldur hvernig við stöndum upp.  Ef við förum í fíkn þá felst svarið í því að koma á fund.  Reynsla okkar sýnir að þeir sem halda áfram að koma fá lausn.  Margir í okkar hópi hafa átt erfitt með að halda sér  í fráhaldi, en allir sem haldið hafa áfram ná bata.  Þú skalt aldrei láta skömm eða sektarkennd yfir því að hafa farið í fíkn hindra þig í að koma á fundi.  Ekki hætta áður en kraftaverkið gerist.

Fráhvarfstímabil (Withdrawal):

Tímabilið  frá því augnabliki þú hættir í fyrsta sinn að  fullnægja fíkninni og þar til þú hefur öðlast frelsi frá henni er kallað fráhvarfstímabil.  Allir nýliðar sem skilgreina botnhegðun sína og leitast við að láta af henni upplifa venjulega þetta tímabil.  Alveg eins og þegar eiturlyfjafíklar ganga í gegnum fráhvörf frá fíkniefnum þá er þetta tímabil í S.L.A.A. þar sem nýliðar fá ýmis líkamleg og sálræn einkenni af því að hverfa frá þráhyggjum sínum.  Þetta getur verið afar sársaukafullt, en eins og segir í 5. kafla S.L.A.A. bókarinnar þá getur það einnig falið í sér nýja og mikilvæga reynslu.  Reynslu af að kynnast raunverulegum tilfinningum okkar, skömm, sorg, reiði, og ótta.  Síðar getum við lent í því að þurfa að upplifa slíkt fráhvarfstímabil upp á nýtt þegar að við breytum skilgreiningunni á botnhegðun okkar og/eða þegar við tökum út fleiri hegðunarmynstur sem við höfum komist að raun um að eru sprottin af ástar- og kynlífsfíkn.

Trúnaðarmaður (Sponsor):

Sponsor er manneskja sem gefur okkur persónulega aðstoð og leiðbeinir okkur í því að beita S.L.A.A. 12 spora aðferðinni í  lífi okkar.  Trúnaðarsamband er milli tveggja einstaklinga sem eru að glíma við sama vandamálið og eru að hjálpa hvor öðrum að vinna prógrammið.  Það getur veitt fólki ramma utan um bata-áætlunina, 12 spora vinnuna og einnig veitt tilfinningalega aðstoð á erfiðum tímum.  Það er hluti af uppgjafarferlinu, að við viðurkennum veikleika okkar og biðjum aðra um hjálp.  Sponsor er fíkill í bata, sem hefur lengri edrúmennsku og meiri reynslu af prógramminu en nýliðinn og ætti því að vera einhver sem hann á auðvelt með að tjá sig við.

Gott er að finna sponsor strax, þó hann sé bara til bráðabirgða.  Það er alltaf hægt að skipta um sponsor seinna ef sambandið gengur ekki upp.  Mikilvægt er að hafa engar duldar meiningar í samskiptum okkar við þann sem sponsar okkur, við borgum honum ekki og við leitum hvorki aflausnar né dóms frá honum.  Sponsorinn okkar er bara annar ástar- og kynlífsfíkill.  Að þessu gefnu, getur sponsor ekki ráðlagt af siðferðislegum stalli.  Sponsorar eru ekki „fullkomið“ fólk í „fullkomnu“ prógrammi.  Sponsorar eru mannlegir og glíma við erfiðleika og efasemdir, rétt eins og aðrir í samtökunum.  En við það að sjá ófullkomnunina í sponsorum okkar, hjálpar það okkur við að losna undan eigin áráttu til að vera fullkomin.  Sponsor deilir hans eða hennar eigin upplifunum og tilfinningum, eftir að hafa verið í svipuðum aðstæðum og við, og gætir sín að ráðleggja ekki.

Nostalgía (Euphoric Recall):

Að  velta sér upp út rósrauðum minningum úr fortíðinni getur reynst ástar- og kynlífsfíklum stórhættulegt.  Að rifja upp botnhegðun okkar úr fortíðinni og upplifa söknuð er það sem við köllum nostalgíu.  Þegar við sleppum okkur í nostalgíu þá gleymum við þeim neikvæðu afleiðingum sem ávallt fylgdu hegðun okkar í virkri ástar- og kynlífsfíkn og sem leiddu til þess að við leituðum til S.L.A.A. í upphafi.  Okkur virðist ómögulegt að kalla fram niðurlæginguna og skömmina nógu skýrt og fyrir flest okkar er nostalgía eitt af fyrstu skrefunum í átt að falli eða sprungu.  En það er ekki aðeins okkar eigið fráhald sem er í hættu, heldur getur það komið öðrum í fíkn ef nostalgían leiðir til þess að við förum í of mikil smáatriði í tjáningu okkar á fundum eða við félaga.  Fundirnir eru ætlaðir til þess að nýliðinn geti heyrt um reynslu okkar, styrk og von.  Nostalgía og dagdraumar eiga ekkert erindi inn á fundi.

Þriggja sekúndna reglan:

Eitt af því sem reynslan hefur kennt okkur er að það fyrsta sem yfirleitt leiðir til þess að við förum í fíkn er huglæg þráhyggja.  Þangað sem hugur okkar fer, þangað fer líkami okkar einnig á endanum.  Af þeim sökum hefur okkur reynst nauðsynlegt að fylgjast vel með hugarfari okkar þegar að kemur að kynlífssviðinu.  Þriggja sekúndna reglan hefur reynst okkur dýrmætt verkfæri til að hafa hugann við raunveruleikann og halda honum úr seilingu fyrir fíknina.  Þegar við sjáum einhvern sem okkur þykir aðlaðandi þá leyfum við okkur að horfa í þrjár sekúndur en lítum svo strax undan og leyfum minningunni að hverfa á brott.  Við látum þetta eina skipti duga.  Við horfum ekki á eftir þeim sem við e.t.v. keyrum eða göngum framhjá í umferðinni.  Við geymum ekki í huga okkar nákvæmt útlit þessara einstaklinga.  Þetta kann að hljóma lítilvægt en mörg okkar hafa fundið að ef við fylgjum smávægilegum reglum eins og þessari þá sjái æðri máttur um það sem upp á vantar í bata okkar.

Slúður og ádeilur (Gossip):

Í samskiptum okkar og spjalli utan funda skyldum við ávallt gæta þess að forðast slúður og gagnrýni á hvert annað.  Það er oft auðveldara að koma auga á galla og mistök annarra heldur en að líta í eigin barm.  Þetta á ekki síst við um þá sem okkur líkar ekki við eða þá sem við erum gröm út í.  Þá einstaklinga skildum við sérstaklega varast að baknaga en biðja heldur Guð um að hjálpa okkur að koma fram við þá eins og við myndum koma fram við veikan vin.  Eða þá við getum leitað til trúnaðarmannsins okkar með þessar hugsanir og ádeilur.  Slúður eða kvartanir yfir öðrum S.L.A.A. félögum tekur fókusinn frá okkar eigin batavinnu og getur leitt til brota á nafnleyndarreglunni.  Slík hegðun er auk þess bæði tillitslaus og dónaleg.  Við skyldum ávallt sýna hvert öðru bæði kurteisi og virðingu.  Reynslusporin fela í sér að við gerum siðferðisleg reikningsskil á sjálfum okkur, ekki öðrum.