Botnhegðun

Botnhegðun (e. Bottom-line behavior)

Ástar- og kynlífsfíkn er frábrugðin alkóhólisma og eiturlyfjafíkn að því leyti að hún getur birst í mörgum ólíkum myndum.  Mjög misjafnt er milli ástar- og kynlífsfíkla hvernig fíknin brýst fram.  Því er það svo að í S.L.A.A. þá skilgreinum við sjálf okkar eigið fráhald.  Við greinum sjálf þá hegðun sem er afleiðing fíknar okkar, sem við köllum botnhegðun.  Það er síðan sú hegðun sem við þurfum að halda okkur frá til að vera allsgáð og er það sem við köllum fráhald.

Algeng botnhegðun sem við forðumst er að stunda kynlíf utan skuldbundins sambands.  Sem dæmi um aðra botnhegðun sem margir félagar kjósa að forðast er t.d. að fara á ákveðna staði, hafa samband við ákveðna einstaklinga, horfa á ákveðna tegund af kvikmyndum eða sjónvarpsefni, notkun á klámefni, ögrandi klæðnaður, leit að skyndikynnum eða jafnvel bara að leyfa sér að detta inn í algleymi fantasía og dagdrauma.  Í stuttu máli að forðast allt sem getur sent okkur aftur inn í þráhyggju og fikn.

Að fá sér trúnaðarmann er nauðsynlegt til að geta heiðarlega skilgreint sína botnhegðun.  Aðeins við sjálf getum sagt til um hvaða mynstur í hegðun okkar eru tengd fíkninni.  Hins vegar getur fíknin blindað okkur fyrir raunveruleikanum.  Til að koma í veg fyrir mögulega afneitun þá fáum við lánaða dómgreind annars aðila og biðjum æðri mátt um að gefa okkur heiðarleika í greiningarferlinu.  Venjulega breytist skilgreining okkar á botnhegðun eftir því sem við þroskumst og öðlumst bata.  Stundum bætast við fleiri hegðunarmynstur sem við sáum ekki áður að áttu rót sína í ástar- og kynlífsfíkn.  Skilgreiningin á fíknarmynstrinu heldur þannig áfram að þróast þangað til við höfum náð fótfestu og jafnvægi í tilfinningalífi okkar.  Það að skilgreina botnhegðun okkar byggist því mikið, eins og svo margt annað í S.L.A.A. aðferðinni, á því að prófa sig áfram, gera mistök og læra af þeim.  Við gætum jafnvel þurft að breyta einhverju í hegðun okkar gagnvart maka okkar eða ástvini.